Meðhöndlun hunangsflugnastungna og ofnæmis

Meðhöndlun hunangsflugnastungna og ofnæmis

Þessar upplýsingar um hunangsflugnastungur veita leiðbeiningar um hvernig hægt er að draga úr hættunni á stungum og um möguleg viðbrögð við þeim og meðferð. Veggspjaldaútgáfunni um hunangsflugnastungur og ofnæmi má hala niður hér.

Hunangsflugna-, býflugna- og vespustungur

Hunangsflugur finnast í náttúrunni í mörgum löndum. Þar að auki eru hunangsflugur og býflugur notaðar sem frjóberar í landbúnaði og garðyrkju. Til eru ýmsar undirtegundir með mismunandi útlit þar með talið mismunandi liti og mynstur. Almennt eru hunangsflugur stærri en býflugur og loðnari en vespur.

Aðeins hunangsflugnavinnudýr og -drottningar eru með brodd og það sama gildir um býflugur og vespur. Karlflugur stinga ekki. Flugurnar nota broddinn til að verja sig. Þegar hunangs- og býflugur stinga, dæla þær eitri inn í líkamann í gegnum broddinn. Hjá mannfólki veldur þetta miklum sársauka í stuttan tíma sem dofnar svo. Annað slagið (í u.þ.b. 1% tilvika), veldur eitrið ofnæmisviðbrögðum.
Viðbrögðin við hunangsflugnastungum geta verið mismunandi á milli tilvika.

Hunangsflugur og vespur eru ekki með gadda á broddinum. Það þýðir að vinnudýrið eða drottningin getur dregið broddinn út og stungið aftur. Býflugur eru með gadda á broddinum. Þegar býfluga reynir að draga út broddinn rifnar hann frá kviðnum á þeim og tekur eiturkirtilinn með sér.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir hunangsflugnastungur?

Hunangsflugur stinga mjög sjaldan. Draga má úr hættunni á hunangsflugustungu með því að forðast að espa þær eða gera þær árásargjarnar. Í fyrsta lagi er mikilvægt að halda ró sinni þegar unnið er með hunangsflugur. Ekki veifa handleggjunum að hunangsflugum, ýta við búinu, snerta eða halda á hunangsflugunni o.s.frv.

Stungin(n)? Viðbrögð og meðhöndlun

Venjulega veldur hunangsflugnastunga staðbundnum ofnæmislausum viðbrögðum: bólga, kláða og roða á stungustað, sem endist aðeins í nokkra klukkutíma. Þetta getur gerst strax eftir stunguna en venjulega gerist það eftir nokkra klukkutíma. Bólgan eða kláðinn getur enst í klukkustundir og jafnvel daga. Í einhverjum tilfellum gætu staðbundin áhrif dreifst eitthvað, í þeim tilfellum eru áhrifin venjulega lengur til staðar. Slík viðbrögð teljast samt ennþá staðbundin ofnæmislaus viðbrögð.

Meðhöndlun ofnæmislausra staðbundinna viðbragða

Venjulega er læknismeðferð óþörf. Hægt er að grípa til nokkurra ráðstafana til að lágmarka staðbundin viðbrögð, sérstaklega ef manneskjan var stungin á viðkvæmu svæði, til dæmis nálægt augunum. Um leið og hægt er eftir stunguna ætti manneskjan að taka bólgueyðandi lyf (svo sem aspirín eða íbúprófen). Einnig má setja kalda bakstra á svæðið. Þar að auki eru til þó nokkur smyrsl gegn kláða (t.d. sem innihalda dietýl-m-tólúamíð).

Í þeim sjaldgæfu tilfellum að stungan er í munni eða koki ætti að fara með sjúklinginn beint á sjúkrahús, þar sem þetta getur lokað öndunarveginum. Á sjúkrahúsinu fær sjúklingurinn barkstera (svo sem prednisón) og verður haldið undir eftirliti.

Ofnæmisviðbrögð

Hjá um 1% fólks gætu endurteknar stungur (eða í sumum tilfellum aðeins tvær eða þrjár stungur) leitt til ofnæmisviðbragða, sem kallast einnig almenn ofnæmissvörun, kerfisbundin ofnæmissvörun, eða ofnæmislost. Þar sem ofnæmisviðbrögð fela í sér mótefni sem myndast við fyrri kynni við mótefnisvaka er ekki mögulegt að fá ofnæmisviðbrögð við fyrstu stungu. Ofnæmisviðbrögð koma venjulega í ljós mjög stuttu eftir stunguna (frá nokkrum sekúndum upp í hálftíma).

Ofnæmisviðbrögð eru flokkuð í fjögur stig, eftir auknum alvarleika:
1. stig - kláði, roði og bólga (ofsakláði) um allan líkamann
2. stig - einkenni 1. stigs auk þarmavandamála (uppsölur, niðurgangur)
3. stig - einkenni 1. og/eða 2. stigs auk öndunarerfiðleika og/eða köfnunartilfinningar.
4. stig - einkenni 1. og/eða 2. og/eða 3.stigs auk hjartsláttarónota, yfirliðs, ofnæmislosts (ásamt svima, óhóflegri svitamyndun og kuldahrolli)

Meðhöndlun ofnæmisviðbragðs

Ef um hita er að ræða eða 1. stigs viðbragð skal hafa samband við heimilislækni. Hægt er að taka ákvörðun um að fylgjast með ástandinu og sjá til hvernig hlutirnir þróast. Æskilegt er að sjúklingurinn sé undir eftirliti á sjúkrahúsi, þar sem viðbrögðin geta versnað smám saman með tímanum.

Eiturverkun

Eiturverkun á sér aðeins stað þegar viðkomandi er stunginn margoft á stuttum tíma. Almenn ofnæmisviðbrögð geta átt sér stað í tauga- eða blóðrásarkerfinu, svo sem takttruflun eða öndunarvandamál. Í þessu tilfelli ætti einnig að fara með einstaklinginn á sjúkrahús til meðferðar og eftirlits.

Oföndun

Auk alvarlegra 4. stigs ofnæmisviðbragða, gæti oföndun, sem stafar ef til vill af losti, einnig valdið yfirliði. Í slíkum tilfellum er einnig nauðsynlegt að hringja í neyðarþjónustu tafarlaust.

Aukin áhætta

Fólk sem notar viss lyf (beta-blokkara) og óléttar konur eru í aukinni áhættu þegar ofnæmisviðbrögð eiga sér stað eftir hunangsflugnastungu.

Að lifa með hunangsflugnaofnæmi

Þó þú hafir fengið ofnæmisviðbrögð einu sinni er ekki víst að þú fáir ofnæmisviðbrögð við næstu stungu. Ef þú hefur fengið 1. eða 2. stigs viðbrögð sérstaklega, eru líkurnar litlar. Viðbrögð við hunangsflugnastungum geta verið mismunandi í hvert skipti. Nú til dags er hægt að taka próf sem notar hreinsað hunangsflugnaeitur til að ákvarða hvort þú munt fá ofnæmisviðbrögð næst þegar þú ert stungin(n). Einnig er mögulegt að notað hreinsað eitur fyrir vannæmingarmeðferð.

Ónæmismeðferð með hunangsflugnaeitri verndar ekki endilega sjúklinga sem eru með býflugnaofnæmi. Þessari meðferð er ætlað að ónæma líkamann fyrir hunangsflugnaeitri. Ef þú vilt ekki gangast undir ónæmismeðferð getur þú fengið lyfseðil fyrir adrenalínpenna (svo sem EpiPen eða Jext) frá lækninum þínum. Þú getur haft hann á þér og hann er notaðar til að dæla epínefríni í lærið ef þú verður fyrir stungu.
Próf og meðferðir eru tiltækar á ofnæmislækningadeild RdGG (dr. De Groot) hjá Diakonessehuis í Voorburg.

Upplýsingar fyrir lækna

Hægt er að fá ítarlegar upplýsingar varðandi læknismeðferð á ofnæmisviðbrögðum frá Koppert gegn beiðni.
Til að fá frekari upplýsingar skaltu hafa samband við ofnæmis- eða lyflækni.

Heimildir
De Groot, H. Allergie voor insecten, Huisarts en Wetenschap 2002; 45 (7): 362-7.
De Groot, H. Allergy to bumble bees. Curr Opin Allergy Clin Immunol 2006; 6: 294-7.

Hægt er að fá útprentað veggspjald með myndunum frá Koppert. Einnig er hægt að hala niður veggspjaldinu hér (vefslóð).
Ábending: Bættu upplýsingum um hvar hægt sé að leita læknisaðstoðar og neyðarþjónustu við á veggspjaldið.

Þessar upplýsingar eru aðeins ætlaðar sem fræðsluhjálparefni og ætti ekki að nota til að greina eða meðhöndla heilbrigðisvandamál þar sem þær koma ekki í stað læknishjálpar. Ef þú átt við heilbrigðisvandamál að stríða eða grunar að svo sé skaltu hafa samband við lækni.

Vantar þig aðstoð?